Við tókum framhjá borginni og ókum með þeim hraða sem aðstæður leyfðu til Dublin. Allt gekk þetta nú með sóma. Eitt kaffistopp og tvö vegagjaldshlið en svo var Dublin komin á skjá Garmsins og leiðin á flugvöllinn rétt eins og Þorri lofaði. EN ég þurfti að kaupa bensín. Við framhjá bílaleigunni og áfram að bensínstöð, horfandi með hryllingi á veginn í HINA áttina – allt stopp – miklar framkvæmdir í gangi – OMG.
Allt blessaðist þetta nú og Írarnir eru mun rólyndari en t.d. Ítalir, Spánverjar og Frakkar. Bílnum komið til skila, við upp í rútu á vegum Budget, - ein, okkur ekið nánast inn í flugstöð, þetta var ekki lélegt.
Innskráning gekk vel, við komum okkur fyrir í setustofu og biðum þess að komast í vélina. Nú var engin tyggjóklessa, enginn sem hallaði sér í fang mér, - nema Sigga, – life was good.
Það var fallegt að horfa yfir París í lendingunni og þessi gríðarlega borg breiddi úr sér fyrir framan okkur. Töskurnar nánast biðu eftir okkur, bíll líka og bílstjórinn stór og mikill skildi mig engan veginn, en þegar hann sá miða með addressunni þá leiðrétti hann mig og svo vorum við komin þangað fyrr en varði. Við komum okkur fyrir, röltum út og kíktum eftir matsölusstað. Klukkan var að verða 22 að frönskum tíma.
Oh my God. Ég er í París. Ég er með Siggu. Ég er í París! Paris!!! Get it? París!
Við fundum lítinn kínverskan og fengum okkur undursamlega máltið (eða vorum við bara svona svöng?), staðurinn greinilega fullur af fastagestum og eigandinn kvaddi þá með handabandi. Einn þjónninn, hávaxin, ung og kínversk, kom til okkar og spurði hvaðan við kæmum. Við sögðum það og þá sagði hún skírt og rétt - Fyrirgefðu. Þetta kallaði á skýringar. Hún hafði sem sé skellt sér til Íslands og þvælst þó nokkuð um.
Eftir að þessari dýrindismáltíð lauk vildi Sigga ganga um París. Miðnætti nálgaðist. Midnight in Paris?
Hún leiddi mig niður George Mandel breiðgötuna og niður undir Trocadero og þar blasti hann við mér, Eiffel turninn sem maður hefur heyrt svo mikið um.
Bara sem barn las ég um þetta verkefni Eiffel, að reisa eitthvert mesta montprik sögunnar fyrir heimssýninguna 1889. Hann er 332 metrar á hæð (Hallgrímskirkjan er 75metrar) og var hæsta mannvirki jarðar þar til Empire State var reist 1931. Þarna stóð hann, handan ár, upplýstur í gylltu, grænu, bláu og rauðu. Og ég hvorki með myndavél eða þrífót. Og Trocadero, hannað fyrir sýningu 1878, og samanstendur af gosbrunni, tveimur stórum safnahúsum, og þessu opna svæði sem er líklega best til að vera á þegar maður vill sjá Tour Eiffel því hann er fallegastur úr fjarlægð, eins og Sigga segir. Við röltum um hverfið og klukkan orðin að ganga 2 eftir miðnætti þegar við lögðumst út af. Sængur? Til hvers?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli