19.7.13

Þvílíkur dagur!

Ég skaust út um 9 og sótti björg í bú. Morgunsnæðing einhvern smá slatta. Ávexti. mmmmm. Spottakorn frá var verslunargata og allt að hafa. Slátrari, bakari, og um klukkan 9 var barinn opinn og kúnnar komnir í morgunhressingu.
Svo var tölt af stað og dagur framundan fullur af væntngum á báða bóga. Skyldu þær ná saman?
Við fórum fyrst á Trocadero og sóttum vatn og kort af borginni. Sigga reyndi að segja mér hversu stór hún væri. Við héldum viður Klebergötu og komum að Sigurboganum.
Þetta er enn meira mannvirki en mann órar fyrir. Sigurboginn var pantaður af Napóleon Bonaparte þá keisara. Verkið hófst 1805 en svo var Bonaparte tekinn höndum og málið varð feimnismál. Loks tóku Fransmenn sig saman í andlitinu og luku verkinu 1836. Torgið sem hann stendur á er kennt við Charles de Gaulle, frelsishetju Frakka. Það er frægt fyrir hátt flækjustig enda einar sex akreinar ef ég man rétt.
Það eru til margar grínmyndir þar sem torgið kemur fyrir þó ég muni ekki eftir neinni sem stendur!
Þarna er líka fagurt mannlíf og þessi trommuslagari var flottur, þó trommusettið væri frunstætt! Við fórum áfram niður Champs Elysées og þá fór Sigga ða hafa áhyggjur af því að ég væri illa búinn til fótanna. Þannig að ég fór og keypti mér hátískusokka, lága, í búð á þessari einni frægustu götu verladar. Að vísu voru þeir keyptir í H og M sem mun vera sænskt og eru líklega of litlir en það verður ekki betra.
 
 
 
Við enda Avenue des Champs Elysées er svo torgið sem í dag heitir Concorde, ekki kennt við flugvélar heldur samstöðu frönsku þjóðarinnar. Það var erfitt að standa þarna og hugsa til þeirra sem voru aflífaðir þarna þegar torgið var kennt við byltinguna sem breytti heiminum. Lúðvík XVI, María Antoinette, Danton, Robespierre og 1115 aðrir fóru undir stokkinn. Síðar kom þessi samstöðuhugsun og þá var sett súla frá Luxor í Egyptalandi, líklega stolið af Napóleoni, á mitt torgið.













Á Champs fengum við okkur að drekka, en frá Concorde var gengið upp í kirkju heilagrar Maríu Magdalegu. Hún er 19. aldar og nýklassík. Hún er í laginu eins og grískt hof en að innan er hún hlýleg, full af höggmyndum og raunverulegt guðshús. Þarna stóð frammi mynd af Jóhannesi Páli páfa og verðandi dýrlingi.






Þá var það Óperan. Á leið þangað hljóp kona til Siggu og sagði hana hafa misst hring! Gullhring sem hlyti að hafa fallið af himni ef Sigga hefði ekki misst hann. Sigga vék sér frá henni, setti hringinn við gluggakarm og gekk burtu. Konan hljóp okkur uppi og lagði til að hún fengi fyrir kaffi fyrst hún hefði fundið hringinn. Sigga benti henni á að taka bara hringinn sem lægi þarna rétt hjá og þakkaði konan fyrir sig með mörgum orðum - sem þó ekki virtust vera kurteisi. Eða hvað þýðir merde?
Stuttu síðar vatt önnur kona sér að mér með eins hring en forðaði sér þegar ég sagiðst ekki vilja ræða málið.
Rétt eftir þetta sáum við þá fyrri búna að hengja sig á tvo menn og vafði þeim um fingur sér, hafði sitt en þegar hún sá Siggu þar nærri brá hún á látbragð sem gaf til kynna orð sem ekki eru við hæfi hér.

En alltént var dagurinn yndislegur. Við vorum allt í einu komin í garðana við Louvre og þar blasti við mér píramídinn frægi. hið eina sanna Parísarhjól. Við gengum niður eftir Signu, líklega hægra megin, undir brýr og með m.a.. grasivöxnum báti. Sólin skein, Eiffel blasti við og við vorum ótrúlega þreytt í fótunum þegar við komum upp undir Bir-Hakeim brúna og tókum bíl áleiðis heim svo við næðum í vatn og fleira.




Búðin var alveg í þann mund að loka þegar við komum og þar var líklega frænka ítalsks landamæravarðar sem réði ríkjum með hávaða og látum og lét reka þá síðustu að kössunum harðri hendi. En okkur var sama. Þvílíkur dagur!

 
 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli