18.7.13

Ævintýri til norðurs

Jæja. Bíllinn var tilbúinn og lestaður á hótelinu. Ég búinn að setja inn á Garminn heimilisfang Þorra og Emmu. Umferðin í lás enda klukkan um fimm síðdegis. Ég einn í bílnum – Sigga hjá Þorra. 
Byrjaði sosum ágætlega á Grand Canal street (Lower) sem er beint fyrir utan hótelið. Vinstri beygja – rautt ljós. Áfram á græna 20 metra og þá beygja og bið á rauðu ljósi en nú til hægri.
Samuel Beckett brúin er afar flott hengibrú og ég fékk góðan tíma til að skoða hana og loks komst ég af henni, til hægri í átt að Þorra og nú flippaði Garmurinn. Hann vildi senda mig hingað og þangað og vissi greinilega ekkert hvar var einstefna, hvar var lokað eða neitt svoddan. Svo ég bara tók af honum ráðin, fann réttu leiðina og lagði í einkastæði einhverrar konu sem ég vonaði að kæmi ekki heim strax – sem hún þó vitaskuld gerði og þá fór ég í annað einkastæði!
Bílarnir klárir og Þorri steðjaði eitthvað út í óvissuna að ná í Emmu sem var á námskeiði en við ákváðum að leggja bara beint af stað norður til staðar sem heitir Blacklion og kennileitið var Monesk og húsið heitir The Hill House. https://www.facebook.com/BlueberryCottages?fref=ts og http://theblueberrycottages.com.
Garmurinn var sosum afar þægur lengi vel en skyndilega þegar við vorum komin vel áleiðis tók hann okkur út af aðalveginum og vildi að við færum sveitavegi. Rétt er að skýra það út að nokkra kílómetra út úr Dublin standa nokkrar hraðbrautir – merktar M – en við af þeim taka gjarnan vegir sem heita N. N vegir eru margir áþekkir þjóðvegi 1 á Íslandi með einum mun. Það er svo mikið af trjám að útsýnið getur verið lítið fyrir næstu beygju og manni ekki alltaf ljóst hversu kröpp hún er. Síðan koma vegir merktir L og R og þá þrengist heldur. Við ókum um sveitir og þorp, heiðar og fjöll og komum loks að þessum stað Monesk og var alveg ljóst þar að við vissum ekkert hvert við vorum að fara. Hringt í Þorfinn – hann fór allt aðra leið um bæ sem heitir Enniskillen. Klukkan var að nálgast hálf tíu, Oisín orðinn frekar þreyttur á þessu ferðalagi svo þau tóku pásu og við reyndum að finna hvert við værum að fara. Ókum veg R207 og stoppuðum frekar ráðþrota við hús á hæð. En ómerkt með öllu. Kemur ekki lötrandi náungi, sem heitir Paddy Lee, virðist vera hundrað ára og ég út úr bílnum og fer að spyrja hann. Honum leist ekki nema mátulega á þennan stórvaxna mann en sagði mér  þó eftir smáspjall að við ættum að fara niður veg sem væri þarna rétt fyrir neðan, til vinstri og beygja svo aftur til vinstri og svo til hægri og þá að fara þann veg og þá sæum við skiltið. Við þökkuðum þeim gamla, heldur tvístígandi og ókum inn þennan veg, L5002 hjá Roo...
Þeir sem hafa séð kvikmyndina Deliverance skilja hugarástand mitt. Við ókum örmjóan veg sem var of mjór fyrir Ford Fiesta bílinn okkar, inn í skóg og fyrsta vinstri beygjan var ekki strax. Inn í skóginn og með ökrum í bland og upp til vinstri inn í enn meira skóglendi... og svo hægri var það ekki Sigga? Og spotti áfram og viti menn þar var skiltið! 
Við brunuðum tilbaka á móti fjölskyldunni í Lexusnum og sátum fyrir þeim á bensínstöð í Blacklion og nú var Oisín sofnaður elsku karlinn. Það var sem sé stutt í höfn og ró.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli