Jólahald og jólasiðir fjölskyldna verða oft kreddufastari en
leiðsögn trúarbragðanna sem að baki búa. Það sama gildir hjá mér án efa. Í
minni fjölskyldu er mikið kapp lagt á samveru stærri og minni eininga. Þá eru
ræktuð gildi s.s. samstaða, stuðningur, kærleikur og vinátta. Við borðum saman,
tölum mikið, spilum og fyrst og síðast erum saman.
Meðal kreddanna í mínum huga er að horfa á salinn í skólanum
mínum færast í jólabúning. Þá set ég eitthvað jólalegt í jakkaboðunginn. Síðan
færast jólin nær, t.d. með tónleikum, ekki síst kórsins í skólanum en líka
öðrum slíkum. Það eru nokkur Heims um bólin tekin. Loks er farið á Hlemmtorg á
Þorláksmessu til að fara í Friðargönguna. Þar mætast við hjónin og þau börnin
okkar sem geta. Við hittum fjölmarga vini í göngunni og það eru mörg faðmlögin
á leiðinni niður Laugaveg í átt að, árið 2013, Austurvelli.
Friðargangan var farin í 35 sinn á þessu ári að ég held. Ég
hef verið með síðustu 26-27 árin að einu frátöldu. Engin pest og engin veðurspá
hefur haldið mér heima. Friðargangan er skipulögð af nokkrum mjög ólíkum
samtökum frá pólítískum til stéttarfélaga til trúfélaga. Þessi samtök hafa því
ólíka sýn á tilgang göngunnar. Sumir vilja ágenga ræðumenn sem skella fram
stuðandi upplýsingum og vekja fólk til umhugsunar um þau vandamál sem við búum
við á þessari plánetu. Og er sosum af nógu að taka. Aðrir vilja barátturæður,
tendra eld í hjörtum og enn aðrir vilja hugleiðingar um frið, lausnarmiðaðar,
friðarstillandi og íhugandi. Ekkert eitt þessara sjónarmiða er rétt í sjálfu
sér.
Til eru þeir friðarunnendur sem tilbúnir eru til að beita
jafnvel sömu aðferðum og þeir sem þeir berjast gegn. Þeir myndu vera tilbúnir
til að fórna heilsu og lífi í baráttu sinni.
Það er því órabil milli minnar sýnar á gönguna og þessara
aðila, þó svo ég treysti mér ekki til að segja til um hvor hafi réttar fyrir
sér. Ég fer á staðinn til að reka lokahnút á jólaundirbúninginn að vissu leiti,
njóta samvista við mína nánustu og leita friðar með sjálfum mér. Friðarins sem
hjartað þarf að finna til að geta miðlað friði áfram því mitt mat er að friður
færi frið. Ég vil líka vinna gegn fordómum og hatri, gegn því að flokkað sé eftir
kynhneigð, trúarhópum, þjóðerni eða sveitarfélögum. Einhvernveginn er það svo að
þegar bein finnast í jörðu þá veit enginn hvaða tungumál sá maður talaði sem
beinin átti. Það er heldur ekki auðsætt hver húðlitur hans var, trúarskoðanir
eða pólítík. Það sem meira er að við hlægjum öll á sama hátt, brosum eða
gleðjumst.
Það er t.d. afar yndislegt að vera á flugvelli og sjá
ættingja hittast eða bara vera á Laugaveginum á Þorláksmessu og sjá vini og
kunningja fagna hver öðrum. Kærleikurinn er annar hluti friðar og margir
minnast þess að þegar flugvélarnar sem stefnt var gegn Bandaríkjunum 11/9 þá
hringdi fólkið sem í vélunum var, eða sat fast í turnunum, í ástvini til að tjá
þeim kærleika sinn. Ekki fréttist af neinum sem hringdi til að hafa í heitingum við fólk.
Lærdómurinn sem ég dreg af þessu öllu er sá að það skiptir
mestu í baráttu fyrir friði að vera sáttur við sjálfan sig, að skilja að við
erum öll af sama meiði og að öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Við eigum
að rækta það góða í okkur, miðla því til annarra og vinna að þess konar
þjóðarsátt sem kallar fram þolinmæði og skilning frekar en hatur og fordóma.
Með þetta í huga sendi ég öllum sem þetta lesa óskir um frið
á jólum og í raun frið alla daga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli