7.12.13

Spilaborg?


Ég hef gaman að því að spila. Skiptir ekki miklu hvað er spilað ef félagsskapurinn er góður. Spilin endurspegla svolítið lífið og tilveruna. Menn geta dregið eða fengið gefin góð spil eða vond en mestu skipta ákvarðanirnar. Ætlar maður sér of mikið? Eða vanmetur maður stöðuna? Það er gaman að spila með lífsglöðu fólki sem kanna ð taka sigri eða tapi.

Það eru líka til svokallaðir kaplar. Enskan á afar gott orð yfir þetta en það er Solitaire, sem þýðir eiginlega einvera. Annað orð á enskan ekki síðra sem er Patience eða þolinmæði. Til eru kaplar fyrir tvo en flestir eru fyrir einn og mjög mis flóknir. Ég held það hafi verið amma mín sem sagði viðmig að ef maður kynni kapla og einhver spil fyrir marga þá þyrfti manni hvorki að leiðast félagsskapurinn eða einveran. Ekki heldur í ellinni.

Spilastokkurinn er svolítið eins og samfélagið. Hann skiptist oftast í fjögur fylki eða liti. Það eru rauðu litirnir, hjarta og tígull sem og svörtu litirnir, lauf og spaði. Af einhverjum ástæðum eru hjarta og spaði oft kallaðir hálitir en hinir eru þá lægri. Hvers vegna veit ég ekki og skil ekki en þetta er mjög gróið í mig engu að síður.

Innan stokksins er síðan valdastrúktúr, kóngur er æðstur, drottning og gosi þar næst og svo hundarnir níu (tvistur upp í tíu) en allt fer það eftir eðli spilsins hvar ásinn stendur. Hann getur verið lægstur eða hæstur eftir behag og smag. Hæstur er hann eins og herforingi kóngsa, lægstur flóttaleið eins og t.d. í Vist.

Hvernig endurspegla spilin samfélagið?

Í sjöspilakapal eru spilin lögð og síðan tekur við ástand þar sem menn fletta oftast þremur spilum úr stokki og reyna að raða spilum. Fyrst leggur maður leggur rautt spil á svart og svart á rautt. Rauð tía fær á sig svarta níu sem fær á sig rauða áttu og svo framvegis.

21 spil snúa með bakið upp, sjö með myndina upp og 24 eru í stokki á hendi. Þó þessi menningarblöndun eigi sér stað í upphafi þá er markmiðið að flokka í raðir frá kóngi og niður í tvist, fjórar eða fleiri, og raða svo upp á ásana frá tvisti upp í kóng – en nú eftir litum. Þetta byrjar sem sé fjölmenningarlega en endar mjög í aðskilnaði.

Allt byggir nú á ásum og kóngum. Hvorugur getur án hins verið. Ef ekki tekst að finna ásana er ekki hægt að flokka litina og ef ekki tekst að finna kóngana eða koma þeim í autt bil þá myndast ekki raðirnar. Stundum líður manni eins og á fundi þar sem ekkert er að gerast. Menn bara tala/fletta en ekki finnst neitt fast land, ekki nein spil af viti og þetta verður svona Natóstaða (No Action, Talk Only).

Ef ás finnst þá fer hann á sinn stað í borðinu og bíður þess eins og pólítískur leiðtogi að ná sínu fólki saman úr þessum ruglingi sem er í borðinu. Verra er með kóngana sem ekki komast úr stokki eða í eyður. Í stöðnuðum kapli flettast þeir fram og aftur, ásamt öðru hefðarfólki, óþreyjan eykst og spilarinn eða kóngarnir pirrast yfir þessu óþolandi aðgerðaleysi þar sem þeir ná ekki að sinna skyldu sinni, að safna upp röðum. Hundarnir eru aftur á móti vinnusamir,mynda raðir og virðast í fljótu bragði bara sinna sinni skyldu en svo vantar tvist eða fimmu eða eitthvað annað og allt situr fast vegna þeirra líka. Þannig er samspilið mikilvægt milli ólíkra lita. Hver hefur sitt gildi, tvisturinn getur eins lokað á framfarir eins og kóngurinn, sem er þá heldur ráðþrota með sitt lið eða sinn lit. Þá geta menn annað hvort horft ofan í bunkann ráðþrota eða einfaldlega tekiðspilin upp, stokkað og raðað aftur með nýtt plan, nýja hugsun.

Svo skyndilega gerist eitthvað, maður sér opnun (eða einhver bendir á hana) og viti menn kapallinn rýkur upp. Allt fer í Ordnung, rétt skipulag liggur fyrir og litagrautur borðsins er flokkaður upp á ásana.

Hún amma mín vissi hvað hún söng. Það er gott að kunna að spila,- meðan maður leggur ekki eignir sínar og heilsu að veði. Og eins og enskurinn sagði: Patience... Sannarlega gott orð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli