25.6.18

Ferðin hefst

Það var reglulega gaman að komast inn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á laugardagsmorgun. Svo tók við bið. Og bið.
Þegar við höfðum verið flutt með strætisvagni út í vél þá lamdi rigningin okkur á landganginum og maður hugsaði bara til Búdaapest og Ravenna og Síena og....
Flugið var ágætt, lendingin frábærlega mjúk og Wizz air fær ágætiseinkunn, nema hvað varðar sætisbilið.
Eftir lendingu hélt biðin áfram eftir töskunum, svo var það stöðvarbíll í bæinn og á Hótel Matyas.
Hótel?
Það varð fljótlega ljóst að þarna yrðum við ekki lengi.  Fyrir utan endalausar tröppur þá var allt skítugt, - nema maðurinn í móttökunni, sem var þjónustulipur og sagðist mundu endurgreiða okkur allt nema fyrstu nóttina.
Við fengum inni á Cosmo sem er í Vita Uta - langri og mikilli göngugötu.
Þar er allt annað yfirbragð, hreinni herbergin og allt það.
Raunar finnst mér Budapest svolítið rykug en hún er snyrtileg.
Þegar við ókum frá flugvellinum þá  fannst manni sem maður gæti verið á hraðbraut við hvaða borg sem er. Mörg vörumerkin eru þau sömu og meira að segja mótorkjaftarnir í útverpinu hljóma eins og ónefndir morgunhanar á ónefndri útvarpsstöð.
Alla vega, eftir að vera búin að fá að skipta um herbergi hjá Matyas þá fórum við út að spassera. Viti menn, hérna vantar ekki veitingahús- kannski ekki frekar en Reykjavík vanti hótel. Og þessi veitingahús eru þjóðrækin og selja ungverska rétti, ungverskan bjór, ungversk vín...
Allir eru með gullas súpu.
Allir!
Við fundum einn notalegan og sátum fyrir utan hann, sá heitir Kantin, en það er varla nógu heitt til að sitja úti.
Svo héldum við áfram að spassera og rákumst þá á fleiri ferðalanga frá Íslandi og spasseruðum með þeim smá stund.
Því næst var háttatími og hótelskipti!




 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli