6.7.11

Ítalía here we come!

Ítalía tekur á móti okkur með hlýju faðmlagi og við fögnum hlýjunni. Hafandi sótt töskur og fundið rútu inn í bæ segir miðasölumaðurinn að rútan fari eftir kortér. Fimm mínútum síðar stekk ég inn í flugstöðina að kaupa vatn og spyr í leiðinni hversu langt sé í brottför. „fifteen minutes senior“ segir frekar svalur gæinn letilega.
Og þannig eru Ítalir. Ferleg svalir en taka sinn tíma. Á flugvellinum sá ég afar myndarlegt par sem talaði mikið saman en var of cool til að leiðast.
Við komumst á Central stazione, finnum hótelið og ég rotast allavega um hálfþrjú. Erfitt að vakna. Sigga ferskari en ég – miklu ferskari – og hafði sofið minna! Ekki venjan!!!
Morgunmatur svona í grundvallaratriðum en Kristalshótelið hefur séð sinn fífil  fegurri samt fer vel um okkur.


Við örkum af stað í blíðu og stefnum fyrst á kirkju heilagrar Maríu en þar rétt við er myndin fræga eftir Leonardo, af síðustu kvöldmáltíðinni. Miðar uppseldir, vikubið og við á leið til Verona og verðum í Bologna eftir rétta viku. See you later Leonardo. Við skoðum samt kirkjuna sem er glæsileg en yfirþyrmandi að mínu mati en Siggu fannst það ekki. Ég fer í safn sem er helgað handriti frá meistaranum með spegilskrift, pælingum og leyndarmálum. Ég horfði og gapti og hugsaði um öll skiptin sem ég hafði reynt að skýra þessar merku bækur fyrir nemendum. Hugsaði enn einu sinni að það sem gerði Leonardo að snillingi var að hann var alltaf að pæla, alltaf að skrifa í kompurnar sínar og alltaf að spyrja um það sem skiptir máli, sem enginn var að spyrja um eða þorði að spyrja um. Síðan sátum  við á torginu framan við kirkjuna og drukkum í okkur manlífið, sáum hópa fara inn til að skoða kvöldmáltíðina. Svolítið á eftir einum þeirra kemur ungur maður á harðahlaupum. Stuttu seinna kemur hann út með hendur á lofti og örvæntingarsvip. Búinn að missa af skoðunarferðinni sem hann átti pantað í (og sjálfsagt búinn að bíða í viku) og næsta tækifæri eftir viku.
Við röltum áfram og skoðum eina kirkju eða tvær og göngum fram á fornminjar keisarahallar sem reist var við lok 4. aldar.







Hún myndar ótrúlega andstæðu við nútíma Milano en Milano virðist ung borg. Borg framsýnna iðnjöfra þarsiðustu aldlar sem reistu Scala og stórar byggingar í Nýklassískum stíl og gerðu torg og breiðgötur. Þaðan  gengum við í bæinn og settumst  á kaffihús gegnt Duomo.



Duomo er  ótrúlegt mannvirki. Bygging hófst í lok 14. aldar og hún er klædd „bleikum“ marmara sem þó virðist hvítur!
Eftir léttan málsverð  gengum við að Duomo og skoðuð. Risavaxin, enda átti hún að hýsa alla 40 þús. þáverandi íbúa borgarinnar. Kirkjan er falleg að utan en skrýtin að innan. Mörg altöru, miklar minjar um kardinála Milanóborgar en m.a. liggja tveir þeirra í glerkistum og þorna (sérstakt). Annar heitir Páll Ferrari en hinn dó 1954. Kirkjan er full af dýrgripum m.a. bókarspjöldum handverksmanna þjóðflutningatímans.  Mér finnst þau alltaf svo falleg í sinni sérstöku fegurð. Einnig hanga þarna uppi bæði málverk og reflar sem gera þessa kirkju svo hlýlega í öllum þessum kalda marmara og steini.
Þaðan gengum við um Vittorio Emmanuel miðstöðina sem er einskonar hjarta aðal hönnuða Milanoborgar. Þar var verið að laga gólfin en handverksfólkið lá og kroppaði í mosaiksteina gólfsins.
Þegar maður kemur í gegnum miðstöðina þá er maður við Scala torgið en þar er afar stór stytta af Leonardo og nokkrum lærisveinum hans. Þar sátum við í sólinni og fylgdumst m.a. með stórum Bens limósínum sem biðu meðan handhafar þeirra sinntu erindum hjá Gucci eða Prada. Við fórum að Scala og fengum að vita að miðasalan opnaði hálfsex.
Þvældumst um miðbæinn fram og til baka og vorum mætt í miðaröðina hálfsex – til að frétta að hún opnaði kl. 18, Ítalir í öllu sínu veldi, það liggur ekkert á. Gott og vel. Við fengum nr. 80 og 81 og miða á næstefsta loftinu...
Settumst á kaffihúsið við Scala og aðspurður sagði þjónninn að nei við værum ekki klædd til að fara í Scala!
Við rukum í lestina og heim.  Neðanjarðarkerfið er þægilegt – þrjár línur og að auki eru sporvagnar.
Skiptum um föt, pantaður bíll og mættum tímanlega. Bílstjórinn sagði fáa koma til Mílanó sem túrista, meira „business senjora and the lalalala“ sagði hann og veifaði hendi og átti líklega við næturlífið.
Honum fannst Pucchini merkilegri en Rossini og Verdi líka.
Óperuhúsið er svakaflott og við förum bakdyramegin inn og upp á fjórðu hæð. Sátum  þar í aftari röð hægra megin sviðs og sjáum ekki nema standa og teygja álkuna verulega. Færðum okkur í tóm og aðeins betri sæti. Óperan heitir Ítölsk kona (eða stúlka) í Alsír og er tónlistin eftir Rossini. Maður getur fylgst með textanum sem er ekki neinn Byron.  Allt er flott. Uppfærslan er  með sömu leikmynd og alltaf – sjá leikskrá – leikritið er þjóðernislegt og fjallar um alsírskan fursta sem rænir ítölsku skipi og þar með ítalskri konu í kvennabúr sitt. Hún vélar  hann og tælir og loks í lokin lítillækkar hún hann og frelsar áhöfnina, sýnir fram á samstöðu Ítala og það hve ítalskar konu eru klókar.
Það er gaman að vera í óperuhúsi þar sem margar af frægustu óperum sögunnar voru frumfluttar. Eða hugsa til þess að þarna stjórnaði Verdi. Þarna sat Verdi og þarna sat Rossini og Pucchinni og söng ekki Kiddi Jóa Kon þarna líka?
Mig minnir að þarna hafi Verdi látið rammfalskan tenór endurtaka sólóið sitt fyrir fullum sal á frumsýningu og þegar tenórinn hafði endurtekið nokkrum sinnum kallaði Verdi – og aftur, þangað til þú gerir þetta rétt!
Og mér finnst líka skiljanlegt að fólk í samfélagi þar sem músík var ekki dynjandi daginn út og  daginn inn, að slíkt fólk fynndi sterkt upplifunina sem margir lýstu Ég hugsa oft til þeirra sem alltaf heyra tónlist, daginn inn og út og missa kannski sans fyrir slíku. Mér finnst þetta magnað. Uppi á fimmtu hæð og sé varla sviðið nema vera dónalega ágengur við netta litla konu á fremri bekk. Og ég þekki óperur. Ég hef séð (og sofið undir) óperur. Heyrt óperur í útvarpi, af plötum og séð þær í sjónvarpinu. 
Sú sem syngur Isabellu (þá ítölsku) er djúprödduð og stórkostleg. Þetta var allt reyndar stórkostlegt og við fáum að fara út með fína fólkinu (sem sagt ekki bakdyramegin) þegar búið er að klappa í 20 mínútur og stórstjarnan sem söng Isabellu hefur hneigt sig í gólfið af hógværð. Þetta er tvíþætt sjónarspil. Við sjáum (heyrum) óperu og sjáum (heyrum) hvernig ítalskir áhorfendur taka við öllu saman. Og þo við skiljum hvorki pointið eða málið var þetta frábært. Sæl. Alsæl. Svöng? Finnum stað, borðum og svo heim örþreytt. Alsæl.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli