Það er afar sérstakur heiður að fá að ávarpa þessa samkomu, við lok þrítugustu og annarrar friðargöngunnar. Hún hefur verið mikilvægur hluti jólahalds fjölskyldu minnar í næstum þrjátíu ár og eina skiptið sem við voru erlendis á Þorláksmessu þá fórum við okkar eigin friðargöngu þar sem við bjuggum þau jólin.
Friður er orð sem við skiljum öll en ekki endilega á sama hátt. Þannig var friði náð í Evrópu í lok blóðugrar fyrri heimstyrjaldar með því að skella allri skuldinni á einn aðila, lofa afvopnun sem enginn stóð við og skilja eitt öflugasta ríki Evrópu eftir í sárum sem ekki gátu gróið. Menn tryggðu frið en ekki sátt. Ófriður á hinn bóginn, er ekki endilega styrjöld eða ofbeldi. Það má leiða líkur að því að á Íslandi ríki ófriður. Samt berum við ekki vopn og við sem stöndum hér eigum ekki von á því að á okkur verði ráðist með vopnum, hvað þá heldur að okkur verði bannað að koma hér saman. Við lítum svo á að okkur sé frjálst að tjá okkur, frjálst að trúa á það sem við viljum. Frjálst að hafa skoðanir hvort sem þær snerta skipuleg trúarbrögð, stjórnmál eða heimspekikenningar. Og við erum hér vegna þess að við viljum frið, sum undir merkjum samtaka sem kenna sig við trúarbrögð, önnur í nafni samtaka sem kenna sig við mannréttindi og einnig tengd stéttarfélagi. Flest jafnvel á eigin vegum. En það eru friðurinn og óskin um frið sem kalla okkur saman.
Frá örófi alda virðist, af fornleifarannsóknum og rituðum heimildum, sem maðurinn hafi leitað að kjarna lífsins, tilgangi lífsins, grunni tilverunnar. Á þessu hef ég lengi haft áhuga og mér virðist sem fjöldi trúar- og heimspekileiðtoga hafi allir leitað að kjarnanum hjá manninum sjálfum, í gerðum hans og því sem hann skilur eftir sig. Mér sýnist, að með einföldum hætti, megi segja að lykilhugtökin séu leit, friður, kærleikur og sátt. Búddha leitaði innri friðar, hvatti fólk til þess að spyrja og efast og lagði áherslu á virðingu fyrir lífinu. Akhenaten, egypskur faraó, boðaði eingyðistrú en kjarni hennar var að sólinni fylgdi birta og líf. Hann vildi leiða fólk sitt úr myrkri í birtu og hann lagði áherslu á að þessi guð hans elskaði lífið. Annar trúarleiðtogi fornaldar, Zaraþústra, lagði kapp á að menn berðust fyrir sannleika, kærleika og því að berjast gegn hinu illa. Út frá kenningum hans varð til trúarkerfi sem var vinsælt meðal hermanna fornaldar og var kennt við guðinn Miþras. Miþras boðaði líf eftir dauðann, lagði kapp á baráttuna við hið illa og kærleika milli manna. Víða má finna fornar minjar hofa Miþrasar og viti menn, þar eru vísbendingar um að kristnir menn hafi stundað trú sína í sömu hofum. Og hver var kjarninn í boðskap Kristninnar ef ekki kærleikur og friður. Sú hugsun er svo nátengd mannkyninu að hún finnst nær alls staðar. Ghandi, sem var Hindúi, lagði áherslu á friðsamlega baráttu gegn óréttlæti. Martin Luther King gerði það líka og kannski er Nelson Mandela magnaðasta dæmið. Hann hafði setið í fangelsi lunga ævi sinnar vegna skoðanna sinna. Þegar hann var frjáls, og vann ásamt stuðningsmönnum sínum leið til valda í Suður Afríku, þá leitaði hann sátta, ekki hefnda eins og sumir hefðu gert.
Einföld niðurstaða mín er sú að öll helstu trúarkerfi mannkyns, allar helstu mannkenningar, ganga út á það að leita sátta, leita friðar og kærleika en kannski mest út á það að ná sátt við sjálfan sig, leita innri friðar og sýna kærleika. Og hér á þessu torgi erum við saman komin, eins og fyrr sagði, stór hópur fólks sem kallar eftir friði í heiminum, án tillits til stjórnmálaskoðana, trúarbragða eða annarra merkimiða sem á okkur hanga.
Eina leiðin til að ná friði er að beita friði, beita gagnkvæmri virðingu og leita sátta. Aldrei hef ég vitað að sátt náist þar sem einn aðili fær allt sitt fram en annar ekkert. Við berjumst því ekki fyrir friði. Við leitum friðar, við beitum friði. Í hindúisma segir að gæska leiði af sér gæsku en illska illsku. Þess vegna sagði Ghandi að ef menn vilji fá auga fyrir auga og tönn fyrir tönn þá endi það einvörðungu þannig að allir verði blindir.
Við eigum rétt á friði. Börnin í Palestínu eiga rétt á friði. Drengirnir sem hafa verið settir til vopna, víða í Afríku, eiga rétt á friði. Stúlkurnar sem fluttar hafa verið mannsali milli landa, börn sem þræla í verksmiðjum víða um heim eiga rétt á friði og virðingu þeirri sem í mannréttindum felst. Og með friði eigum við líka við kærleika og sátt. Sátt við umhverfi okkar og sátt við okkur sjálf.
Mér finnast jólin yndislegur tími. Þau eiga margbrotnar trúarlegar skírskotanir. Í aldanna rás hefur fólk hækkandi sól, um allan heim, en kannski ekki allt á sama tíma. Það er sama hvort við hugsum í íslenskum trúmálum fyrir eða eftir kristnitöku. Við færum gjafir, kveikjum ljós og fögnum því að nú er daginn farið að lengja og við fögnum þessu einstaka afmælisbarni sem er liðlega 2000 ára. Vissulega getum við látið kapítalismann og neyslusukkið fara í taugarnar á okkur en við eigum líka að muna það sem á bak við jólahaldið stendur. Við sendum vinum jólakort og kveðjur, sem eru skilaboð um að við munum eftir þeim og að okkur þykir vænt um þá. Við söfnumst saman á vinnustöðum, heima hjá okkur, söfnumst í vinahópa og fjölskyldubandalög. Við pirrum okkur hvert á öðru en munum að við viljum ekki vera án hvors annars. Jólahald fjölskyldunnar er líklega eitthvert sterkasta kærleiksafl ársins. Ungir og gamlir hittast, blanda geði, spila, rökræða, en kannski fyrst og síðast tengjast.
Og það er þessi réttur sem mér finnst kannski mest um verður. Rétturinn sem við eigum til að búa við frið, deila friði. Það sem við köllum mannréttindi, réttinn sem hvert og eitt mannsbarn á , hvar sem það fæðist, á Íslandi, á Austur Tímor, í Bangla Desh, í Efra Volta.
Sem kennara og skólastjórnanda finnast mér þessi réttindi barna og okkar allra mikils verð. Þegar ég horfi á unga fólkið sýna hæfileika sína í íþróttum, rökræðum, prófum, skapandi listum og skapandi hugsun svo eitthvað sé nefnt, þá get ég ekki varist þeirri hugsun að við verðum að muna að grundvallarréttindin sem okkur eru gefin í mannréttindayfirlýsingum eru ekki umsemjanleg. Við verðum að verja þau, við verðum að trúa á þau og beita okkur fyrir því að aðrir njóti þeirra líka. Kannski hittir Páll Óskar naglann á höfuðið þegar hann syngur „Megi það byrja með mér!“
Þá vil ég lýsa þeirri ósk minni heitastri að nú á myrkasta tíma vetrarins þegar sólin er farin að hækka og framundan eru vorið og birtan þá takist okkur að rækta fræ friðar í hjörtum okkar. Ég get ekki með orðum lýst þeirri þrá sem með mér býr að þetta blessaða þjóðfélag okkar búi börnum sínum sátt og framtíð þar sem, þessi friðarfræ, fá að vaxa.
Að lokum vil ég segja ykkur frá því að nú þegar þessari ræðu minni lýkur þá hlakka ég til að fara til konu minnar, barna og allmargra vina sem hér eru og syngja með þeim og þessum glæsilegu kórum eitthvert alþjóðlegasta og fallegasta lag allra tíma, Heims um ból, eins og ég hef gert síðustu áratugi. Ég er mikið jólabarn og frá og með þessari stundu ganga jólin í garð hjá mér. Ég færi ykkur öllum óskir um gleði á jólum, farsæld á nýju ári og frið um alla tíð. Takk fyrir að gefa ykkur tíma til að hugsa um frið. Takk fyrir áheyrnina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli