Söngkeppni framhaldsskólanna var haldin laugardaginn 21. 5. 2012 og var
send út í sjónvarpi á vegum Saga film. Nokkuð var búið að ganga á við
skipulagið enda skapaðist sérstök staða í fyrra þegar um 5000 ungmenni fóru norður
á Akureyri í tilefni keppninnar en einvörðungu 1000 eða svo fóru á sjálfa
keppnina. Umgjörðin varð að útihátíð
Það var því tímabært að taka formið til kostanna. Sú leið sem farin var
er hins vegar vafasöm. Forkosning veldur því að nemendur sem eru trúir sínum
skóla kjósa hann frekar en besta atriðið og þá getur stærð skóla farið að
skipta máli. Kannski þyrfti að gera eins og á Eurovision – hver skóli kýs (en
ekki sjálfan sig) og svo fá hvert atriði stig miðað við það frekar en hausatölu.
Hins vegar játa ég að ég missti áhugann þegar ég sá hvert stefndi í
kosningum og auk þess fannst mér nemendur míns skóla sýna þessu lítinn áhuga.
Af þessum sökum var það afskaplega ánægjulegt þegar ég frétti að
Tækniskólinn hefði unnið með atriði sem ég held að hafi aldrei verið notað áður
– nefnilega karlakór skólans.
Flott og til hamingju með þetta Tækniskólamenn og konur.
En að allt öðru – sem var tilefni þessa pistils.
Eitt af því sem vakti athygli mína var þessi forkosning sem virtist
skipulögð af fólki sem ekki vissi að stærsti framhaldsskólinn er með á þriðja
þúsund nemenda en sá minnsti með um eitt hundrað. Þetta er vandi sem raunar er
harla landlægur. Menn skipta skólum gjarnan í fjölbrautaskóla og bekkjarskóla
og telja jafnvel að allir bekkjarskólar séu einvörðungu bóknámsskólar en allir
fjölbrautaskólar blandaðir jafnvel til helminga sem bók- og verknám. Eða að allir menntaskólar séu bóknámsskólar, eða o.s.frv.
Það er margt annað að skoða. Stærð skólanna, staðsetning skólanna,
hlutföll verknáms og bóknáms ráða miklu og það er mjög margbrotinn veruleiki
sem býr að baki þessu kerfi.
Af þessum sökum er afar merkilegt að keppnir sem haldnar eru í nafni
framhaldsskólans eru fyrst og síðast miðaðar við stóra bóknámsskóla.
Hér á ég við Gettu betur (spurningakeppni sem byggir á kunnáttu,
staðreyndastagli og utanbókarþekkingu frekar en verklagi, námi og færni),
Morfís (ræðukeppni) og Söngkeppnina.
Það er t.d.athyglivert í mínum huga að spurningar um sögu, landafræði
og íslenskt mál standa frekar í nemendum en spurningar um fána og frægt fólk.
Það eru aðrar keppnir s.s. þýskuþraut, iðnnemakeppnir og fl. (sbr.
Pawel) en þær eru mun námstengdari en hafa ekki fengið jafn mikla athygli.
Þær keppnir sem hér voru nefndar að ofan (Gettu betur, Morfís og
Söngkeppnin) hafa verið aðal auglýsing svokallaðra vinsælla skóla (MR, Kvennó,
VÍ, MH) en hafa ekkert með skólastarf að gera. Raunar má segja að Gettu betur
og Morfís byggi á nemendum sem ekki hafa getu sína á þessu sviði úr
skólastarfi.
Ef menn vilja setja á keppnir sem hafa eitthvað með skólastarf að gera
þá væri það t.d. að vera með íþróttakeppni sem byggir á almennum íþróttum eða í
skólafögum þar sem m.a. væri litið til framfara hjá nemendum. Alla vega
námstengdar keppnir þar sem kennarar hafa hlutverki að gegna og skólinn sem
slíkur.
Það er frekar kauðslegt að auglýsa skóla á grunni keppna sem hafa
ekkert með skólastarf að gera. Kannski tímanna tákn. Er ekki eitt helsta
sölubragð á tölvum, liturinn á kassanum eða línurnar í lokinu?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli