21.11.17

Ferðalok - á Indlandi að sinni


Agra er borg sem stendur á bökkum árinnar Yamuna og er í héraði sem heitir Uttar Pradesh ríki. Höfuðborg Uttar Pradesh heitir Lucknow.

Við erum hinsvegar komin til Jaipur, sem er höfuðborg Rajastan. Ólíkt Delhi og Agra er þessi borg stofnuð árið 1727 af Jai Singh II sem nefndi borgina eftir sér. Þarna er hluti borgarinnar skipulagður í þaula og mikil breiðstræti en fátæktin sú sama. Litlar smásöluverslanir vekja athygli sem og nánast algjör fjarvera stórverslana, magasína og merkjabúða s.s. H&M.

Jai þessi hafði búið um hríð í sloti forfeðra sinna sem er gríðalega stór kastali kallaður Ambur virkið. Vegna þess hve skipulögð hún er (og finnst ekki annað eins á jörðu sagði leiðsögumaðurinn.) þá ganga þvergötur vers og kruss en inni á milli koma þröngar snúnar götur sem DK ekur um af sinni fádæmalausu snilld. EN innan um og á milli eru örbirgðin og skíturinn.

Nýr leiðsögumaður tekur við og sýnir okkur fyrst háan vegg sem var ekki sérlega vel skýrður eða spes.

Þegar þessu lauk og við áttum að fara í bílinn þá var ég eitthvað að góna og vissi ekki fyrr en að ég var kominn hálfur inn í bílinn að annars vegar var bílstjóri að æpa á mig og ýtti mér út og hins vegar stóðu ÁSM, DK og leiðsögumaðurinn æpandi og einhver togaði í jakkann minn. Þvílíkur æsingur. Þegar annar hver leigubíll er hvítur Toyota Innova og hinn helmingurinn hvítur Toyota Innova með álímdri rönd þá er nú alveg hægt að ruglast á bílum án þess að það skapi alþjóðlegt stríðsástand.

Hins vegar brast út skellihlátur í réttum bíl og DK jafnaði sig á hótelruglinu.


Nú upp í fjöll og spennan jókst. Við stefndum í átt að risastóru virki maharasjana í Rahsastan. Mikið hefur hann talið sig hafa að verja. Ekki það að það tók um 200 ár að koma þessu öllu fyrir og stuttu síðar flutti Rashinn sig til Jaipur, - sjá neðar.  Raunar skýrir Aarvan út skipulag kastalans en það eru fjórir hallargarðar. Sá fjórði var fyrir her og hersýningar. Þriðji var þar sem hann tók á móti þegnum sínum. Annar var þar sem hann tók á móti gestum og var jafnframt með vetrarhöll fyrir sig og konurnar 12. Í þeim fyrsta voru íbúðir kvennanna og leynigangar svo hann gæti laumast til þeirrar sem hann kaus án þess að hinar vissu hver sú „hamingjusama“ yrði. Fyrsta drottningin átti svo stóran heitan pott þar sem hún baðaði sig í mjólk og rósablöðum...


Hann sýndi okkur hvernig kastalinn virkaði. Þannig var t.d. torgið þar sem íbúar héraðsins hittu herra sinn skipulagt þannig að eiginkonurnar gátu fylgst með án þess að sjást. Þá var fyrstu drottningu ekið um á hjólastól sem þýddi að aðgengi fyrir fatlaða er frábært – og hefur verið það frá 16. öld. Einnig að það var vetrarhöll inni í kastalanum þar sem veggir voru skreyttir speglum frá Belgíu og gimsteinum víða að. Svona rými er hægt að skoða úr fjarlægð en ferðamenn eru víst skæðir við að reyna að ná sér í bita. Gangarnir milli herbergja eru þröngir og mér, þó nettur sé, þótti nóg um!

Á leið niður stoppuðum við á árbakka vatns sm sá höllinni fyrir svala og þar hittum við aftur fólk úr brúðkaupinu góða – Íslendinga!

Þar voru einnig snákatemjarar og kostaði 50 rúpíur að taka mynd. Hér voru einnig fílar í fullri vinnu við að ferja fólk sem og kameldýr. Raðirnar voru langar og því var nútímasamgöngutækniakstursaðferðafræði notuð með flauti og ýtni og vangaveltum um hvort hann æki alltalf á fjórum hjólum.

Úr amburlitaða virkinu í gult virki en eins og nefnt var að ofan ákvað Jai maharishi að flytja starfsemina ofan úr fjalli og í nýja höll, eiginlega um það leiti sem byggingu hinnar var að ljúka. Til að fá svala og raka skellti hann svo einni höll út í stöðuvatn við borgina, þrjár hæðir upp úr vatninu og líklega ein eða fleiri neðan vatnsborðs.
Við svo búið vorum við spurð um handverksmarkað. Þar væri allt handunnið af fólki sem fékk skít og skammir að launum. Við afþökkuðum pent, langur akstur framundan og það allt.
 
Þessi er reyndar frá Agra en hér er verið að leyfa mér að prófa söngskál...


Þá var farið með okkur í borgahöll núverandi maharishi, sem er raunar meira eins og lordar Bretlands. Hefur lítil völd, selur aðgang að heimili sínu og heldur brúðkaupsveislur og fleira og virðist nú bara gera það gott.

Flottasta fyrirbærið í Jaipur er stjörnuskoðunarstö. Þar eru sólúr og gleiri tæki til að skoða hvað klukkan sé með nákvæmni upp á tvær sekúndur segir Arvin. Og viti menn – hann las á græjuna, og klukkan mín var nákvæmlega það sama. Hún er frá 17. eða 18. öld.

Nú var steðjað í bílinn til DK og gædinn kvaddi.

Stefnan tekin á Delhi og ég viðurkenni að hafa gripið í eitthvað mér til öryggis svona af og til..
Það var samt viss tómleiki í loftinu. Á morgun fljúgum við héðan. Ótrúlegu draumaferðalagi að lljúka í frábærum félagsskap. Skrýtið. Þetta virtist svo löng ferð!
 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli