21.11.17

Stóri dagurinn í Agra


Dagurinn í dag hófst í þoku. Við höfðum beðið leiðsögumanninn, konuna hana Zeemu, að hitta okkur um kl 06 til að fara út í Taj Mahal. Það var svo mikil þoka hins vegar að brottför var frestað til kl. 07.00.

ÁSM tók þessa
 
Þá strax voru komnar miklar raðir í Taj Mahal en útlendingar njóta forgangs (enda borga þeir sumstaðar tífalt á við heimamenn) og Zeema renndi okkur í gegnum allt á örskotsstundu.
Það verður að viðurkennast að okkur fannst hún hafa fulllangan formála að þessu öllu og útskýra sjónarhorn og sögu staðarins. Taj Mahal er eitt af sjö núverandi undrum veraldar. Það er tákn um ást, sorg, ofbeldi og ótrúlegan metnað.
 

Stutta útgáfan er þessi: Mógúllinn Shah Jahan, féll flatur fyrir konu sem hét Mumtaz Maha. Hún var islömsk prinsessa frá Persíu. Hann var þá 14 ára. Hann bað hennar tíu sinnum og fékk nei jafnoft en hún gaf sig við ellefta bónorðið eftir fimm ára eltingaleik.

Hún var ekki eina konan hans en sú sem naut mestrar virðingar. Munum að hjónabönd þessa tíma gátu verið pólítískir samningar. Mumtaz Mahal lést árið 1631 af barnsförum, þegar hún ól bónda sínum fjórtánda barn þeirra hjóna. Shah Jahan afréð með det samme að byggja minnisvarða um hana. Framkvæmdir hófust þegar árið 1631 og Shah Jahan sótti færustu steinsmiði og aðra iðnaðarmenn til nærliggjandi landa, sem og Indlanda og sagan segir að á hverjum tíma hafi 22 þúsund manns og 1000 fílar unnið að byggingunni sem tók 22 ár að reisa. Það er allt byggt úr hvítum marmara. Verkið kostaði 32 milljónir rúpía og það er ekki uppreiknað til samtímans. Verkinu lauk árið 1653. Þess má geta að matarskammtur hjá götusölum kostar frá einni og upp í tíu rúpíru. Miðað við þar eru þetta (m.v. 5 rúpíu meðaltal) nærri sex og hálf milljón matarskammta á núverandi verðlagi en ég er viss um að rúpían hafi fallið í verði síðustu 360 árin eða svo.

Nafnið á grafhýsinu er stytting á nafni Mumtas Mahal. Hún taldist þriðja drottning en hann hélt mest upp á hana og mun hafa hundsað hinar drottningarnar. Nafn konunnar er gælunafn og þýðir eiginlega Gimsteinn hallarinnar.

Árið 1658 tók sonur hans völdin og setti föður sinn í fangelsi, eiginlega stofufangelsi, svona eins og að vera fangelsaður og settur í forsetasvítuna á flottasta hugsanlega hóteli heimsins. En þar mátti hann dúsa og hafði sér það helst til friðþægingar að horfa á Taj Mahal yfir ánna frá höllu hans. 
Það er margt sem einkennir Taj Mahal. Eitt er samhverfan en húsið er eins á alla kanta. Á því eru fjórar dyr sem snúa móti höfuðáttum. Hjálmurinn yfir því er tvöfaldur og skraut hverrar hliðar NÁKVÆMLEGA eins. Yfir dyrum er texti úr Kóraninum. Það er blómaskraut sem er Hindískt og tákn sem koma víða að á húsinu. Yfir hjálminum er t.d. lótusblóm höggvið og látið snúa niður sem tákn um dauða hennar. Turnar eru fjórir hver á sínu horni og halla þeir út þannig að ef kæmi jarðskjálfti að þá féllu þeir út en ekki á hofið.  Einnig að það er búið að girða allt svæðið þannig að almenningur getur ekki snert nema sléttan marmara vegna þess að fólk var að pilla úr veggjunum. Taj Mahal á sér sín leyndarmál. T.d. er kista drottningar sem sést á gólfi grafhýsisins eftirlíking en sú raunverulega er undir gólfinu dýrlega skreytt gimsteinum og allskonar glimmeri.

Svona má lengi telja.
En orð lýsa illa stemmingunni sem þarna var að finna. Þar eru myndir betri. Koma en hótelanetið erþungt og því er ég á eftir!
Þegar við vorum búin að meðtaka stemminguna, sjá bekkinn sem Díana sat á, fá allar sögurnar, t.d. af hinum drottningunum sem var bara holað niður með öðru fólki þá létum við berast með straumnum og út af svæðinu.
Næst var rauða virkið í Agra sem er firnamikið mannvirki og ná virkisveggirnir um tæpum fjórum kílómetrum sem er þá ummál kastalans. Þarna var gríðarleg mannmergð en samt gaman að skoða. Það var lærdómsríkt að sjá Zeemu hafa stjórn á umhverfi sínu af kurteisi og festu, - þetta er nefnilega ekki land kvenna með völd. Hún sagðist vera kennari og master í sögu, ætti pabba sem væri skólastjóri, menntaða móður og afturhaldssama ömmu sem skildi ekkert í barnabarninu.

En Rauða virkið var yfirgengilega magnað og margt að gleypa.
Eitt var sagan af einum mógúlnum sem kom sér upp útimarkaði á grasflöt í hallargarðinum þar sem eingönu konur mátt versla. Þannig valdi hann ofan af svölunum eina og eina sem fæstar urðu meira en einnar nætur gaman. Þá sáum við mannvirki sem voru m.a. húsnæði Shah Jahan sem hagaði málum þannig að hann sá til Taj Mahal. Honum var svo búin dýflissa eins og að ofan var reint sem var þó í skárri kantunum.

Núna hefur indverski herinn höfuðstöðvar í kastalanu og er því einungis hægt að skoða um 25% eða minna. Er nú nóg samt!
Þegar þarna var komið við sögu var sérlega nauðsynlegt að kynna sér handverk steinsmiðanna sem útbjuggu skrautið á Taz Mahal, það er hönnuðu litamynstur og skáru út í allskonar steina, sem var komið fyrir í marmaranum. Okkur var sagt sitt af hverju um kjör þeirra. Þeir eru afkomendur handverksmannanna sem skreyttu grafhýsið en Shah Jahan neitaði þeim um að fara því hann vildi ekki að þeir gætu unnið slíka þjónustu fyrir aðra. Þegar kynningunni lauk vorum við skyndilega komin í búð sem seldi handverk þessa fólks. Þar var mér boðin allvegleg borðplata sem kosta átti 35 þúsund bandaríkjadala (ekki rúpia – þá hefði ég keypt hana) auk sendingakostnaðar.

Hér skildust leiðir. Við kvöddum Zeemu með virktum og fórum að leita að gististað. Síðasti dagur dvalar okkar á Indlandi yrði næsta dag. Hverju gleymdum við? Gat það verið?
DK ók í loftinu frá Agra til Jaipur og við á Sheraton four peeks, sem reyndist með mjög glæsileg herbergi, flottan matsölustað, ekki eins góðan morgun mat og sérlega leiðinlegan þjón.

En svefn sótti að – við eigum að vera tilbúin kl. 7.30 sagði DK.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli