23.6.12

Frábær bíómynd

Ég var dreginn á dögunum að sjá franska gamanmynd og ætlaði ekki að nenna.
En hún var frábær og ég mæli með að sjá þessa útgáfu áður en amerísk kemur.
Hún heitir Intouchables og hér er  trailer.
Hún er kynnt svona á midi.is=>  
Ríkur aðalsmaður, sem býr í stórhýsi í París, lendir í slysi og lamast fyrir neðan mitti. Hann auglýsir eftir aðstoðarmanni sem getur búið hjá honum og hugsað um sig. Ungur afbrotamaður úr fátækrahverfunum mætir í viðtal en hefur í raun ekki áhuga á starfinu. Sér til undrunar er hann ráðinn. Mennirnir tveir þróa með sér djúpan vinskap í kjölfarið.
Hér er á ferðinni kvikmynd sem er að fara mikla sigurför um allan heiminn; hún slær í gegn í hverju landinu á fætur öðru og er orðin langaðsóknarhæsta franska mynd allra tíma. Reyndar er hún orðin aðsóknarhæsta mynd allra tíma af myndum sem eru ekki á ensku.
Heildartekjur myndarinnar á alþjóðlega vísu eru nú komnar í rúmlega 350 milljónir dollara. Weinstein frumsýndir myndina vestra í lok maí en þeir hafa einnig keypt réttinn til að endurgera myndina.
Leikstjóri: Olivier Nakache og Eric Toledano
Handrit: Olivier Nakache og Eric Toledano
Leikarar: François Cluzet, Omar Sy og Anne Lee


 Myndin er byggð á ævisögu Philippe di Borgo sem heitir á ensku A second wind og ég ætla mér að verða úti um hana.

Omar Sy fer á kostum í myndinni sem fátækur drengur, ættleiddur frá Senegal, og býr við ömurlegar aðstæður. Ég hef aldrei séð þennan dreng áður en mun leita mynda með honum. Í lokaatriðinu kemur yfir hann svipur sem er nánast helgur. François Cluzet er gamalkunnur, m.a. úr myndinni French kiss, þar sem hann lék Bob - smáþjóf sem reynist örlagavaldur þeirra Meg Ryan og Kevin Kline. Audrey Fleurot er mér óþekkt og yndisleg leikkona og Anne la Ny fer á kostum sem besta vinkona Driss hins Senegalska.

Það eina sem fór fyrir brjóstið á mér  voru jónureykingar þeirra félaga sem eiga sér skýringu en voru full frjálslegar og eru  orðnar fastur partur af gamanmyndum.
Myndin er svona ein af þessum "teflum-saman-mjög-ólíkum-persónum-og-látum-þær-ná-saman" myndum, sosum eins og Kings speech og svo frv. en andinn  og takturinn milli leikaranna og í sögunni er einstakur og skilar sér alla leið eins og í bestu myndunum sem á þessu taka.
Glæsileg mynd og mannbætandi saga.
Tilvitnun myndarinnar?
Philippe (sá fatlaði) er að ræða við ættingja. Ættinginn hefur (eðlilega) áhuga og áhyggjur vegna þess að ríki lamaði maðurinn er með dæmdan smáglæpamann í vinnu. "Hvað sérðu í honum? spyr ættinginn." Svar: "Hann kemur ekki fram við mig eins og  ég sé fatlaður."
Kjarni myndarinnar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli